Enginn morgunmatur fyrir leikskólabörn
Þá verður öllum matráðum í leik- og grunnskólum bæjarins skylt að elda hádegismat eftir sömu uppskriftunum.
Breytingarnar taka gildi um áramótin en þær felast í því að ekki verður lengur boðið upp á morgunmat á leikskólunum en í staðinn verður ávaxtastundin veglegri. Eins verða gerðar róttækar breytingar á hádegisverði bæði leik- og grunnskóla bæjarins, sem felast í því að sameiginlegur matseðill mun gilda fyrir alla skóla bæjarins.
„Megin markmiðið með þessu verkefni er að veita börnum í leik- og grunnskólum Akureyrar hollt og gott fæði í hádeginu,“ sagði Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi Akureyrarbæjar í viðtali við fréttastofu RÚV.
Matseðillinn mun rúlla á sjö vikna fresti og eiga allir matráðar skólanna að elda eftir sömu uppskriftunum. Búið er að yfirfara allar uppskriftirnar með tilliti til hitaeininga og næringagildis og verða þær aðgengilegar foreldrum á netinu.
„Þetta er ákveðið þróunarverkefni og við munum náttúrulega meta þetta aftur eftir þessa önn. Við byrjum núna í janúar og munum svo meta aftur með haustinu hvernig okkur hefur tekist til. En það sem er megin reglan núna er að það verða allir að fylgja sömum uppskriftum og fylgja þessum matseðli þannig að við getum metið þetta,“ sagði Hrafnhildur að lokum.
{loadposition nánar fréttir}