Endurgreiðslur hækka vegna tanna
Gjaldskrárbreytingin gildir til áramóta. Með þessu ætti endurgreiðslan að hækka úr tæpum 42 prósentum í 62,5 prósent.
Hafa rukkað að vild
Á hverju ári síðustu tíu árin hefur afgangur orðið af því fé sem Alþingi hefur ákveðið að verja til tannlækninga sjúkratryggðra hér á landi. Meginástæðan er sú að enginn samningur hefur verið í gildi milli ríkisins og tannlækna og tannlæknar því rukkað að vild fyrir þjónustu sína. Þar með hefur hlutfall endurgreiðslu vegna tannlækninga barna lækkað verulega. Með því að hækka tímabundið gjaldskrá Sjúkratrygginga nú eykst um leið endurgreiðsluhlutfallið til forráðamanna barna sem fara til tannlæknis.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að endurgreiðsluhlutfallið hafi ekki verið hærra í tæpan áratug.
Fleiri fari til tannlæknis
Í fyrra var afgangurinn nýttur í sérstakt átaksverkefni þar sem börnum tekjulágra foreldra var boðin ókeypis tannlæknisþjónusta og nýttu tæplega 800 börn sér það. Í ár verður þessu öðruvísi hagað. Áætlað er að afgangur af fjárlagalið tannlækninga á þessu ári nemi að óbreyttu um 174 milljónum króna. Með gjaldskrárhækkuninni frá 1. júlí til 31. desember 2012 nýtast þessir fjármunir að fullu. Meginmarkmiðið er að fleiri börn leiti til tannlæknis en ella og er áætlað að þeim fjölgi um að minnsta kosti 10 prósent með þessari breytingu.
Unnið er að því að ná samningum við tannlækna og er stefnt að nýtt fyrirkomulag taki gildi í áföngum með bættri þjónustu við börn og barnafjölskyldur, samkvæmt ruv.
{loadposition nánar fréttir}