Brotist inn í leikskóla
Leikskólastjórinn sem er friðelskandi indversk nunna segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að svona geti gerst hér á landi.
Sælukot er ný-húmanískur leikskóli. Börnin fá grænmetisfæði og þeim er kennd hugleiðsla og jóga. Þar er mannúðarhyggja höfð að leiðarljósi í öllu starfinu og börnunum kennt að sýna náungakærleik og ást á öllu sköpunarverkinu, mönnum, dýrum, plöntum, -allri náttúrunni og líka því sem sést ekki. En það sem blasti við leikskólastjóranum í morgun var ekki beint í anda við það sem þar er boðað.
Þjófar höfðu brotist inn um glugga og stolið tölvum, myndavélum og sjónvarpsskjám. Didi Ananda Kaostubha, leikskólastjóri, segir að í morgun hafi hún orðið fyrir miklu áfalli þegar hún hefði séð hvað hefði gerst. Allt hennar starf í 20 ár, öll hennar skjöl, hafi verið á disk sem hafi horfið. Hún segist verða að fá þennan disk aftur og sé tilbúin að greiða fyrir hann og gæta nafnleyndar. Hún segir að það sem kennt sé í leikskólanum sé í hrópandi mótsögn við þetta. Í skólanum sé sagt að þó manni líði illa megi ekki færa vanlíðan sína yfir á aðra. Hér hafi hún þó fengið að finna fyrir því.
Krakkarnir létu hins vegar ekkert á sig fá og kyrjuðu friðarmöntru í rigningunni.