Borgin hefur lofað að drengurinn fái pláss í skóla
Rætt var við móðurina Guðrúnu Evu Jónsdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar sagði hún frá því hvernig Hjörtur Hlíðar, sonur hennar sem er með ódæmigerða einhverfu og mikla þroskaröskun, hafi ekki fengið inn í Brúarskóla því þar væri ekki laust pláss. Þau mæðgin fluttu til Reykjavíkur frá Akureyri í vor.
Brúarskóli er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. Þegar Guðrúnu var tilkynnt um að hann fengi ekki inn þar sótti hún um fyrir hann í hverfisskóla þeirra, Árbæjarskóla, en fékk einnig höfnun um skólavist þar.
„Skólarnir að byrja á mánudag og ég veit ekkert hvað verður um barnið,“ sagði hún í gær:
Borgin baðst afsökunar
Í dag hringdi síðan skóla- og frístundasvið í hana og fullvissaði hana um að Hjörtur Hlíðar fengi skólavist í Brúarskóla.
„Það eina sem hún gat ekki lofað mér var að hann gæti byrjað strax á morgun en lofaði að það yrði allavega ekki seinna en á þriðjudag,“ segir Guðrún Eva.
Hún er auðvitað ánægð með útkomuna:
„Þetta er náttúrulega það sem ég vildi fyrir hann. Hann hefur ekkert að gera með að fara í venjulegan skóla. En ég sótti líka um í Árbæjarskóla því mér ber skylda til að koma barninu í skóla, alveg sama hvar það er. Þannig að ég er mjög sátt,“ segir hún.
Hún segir borgina hafa beðið sig afsökunar á málinu. „Biðjast afsökunar á öllu, að það væri ekki búið að hafa samband við mig. En ég veit það fyrir víst að hún hefði ekki haft samband við mig á sunnudegi ef ég hefði ekki farið í fréttirnar á laugardeginum.“, samkvæmt visir.
{loadposition nánar fréttir}