Börn fædd 2010 fá ekki inni strax

Börn fædd 2010 fá ekki inni strax

þótt hefð sé fyrir því að börn undir tveggja ára aldri séu tekin inn. 2010 árgangurinn kemst inn í síðasta lagi næsta haust, segir borgarfulltrúi.

 

Víða á leikskólum borgarinnar eru laus pláss, þrátt fyrir að 900 börn fædd árið 2010 séu á virkum biðlista.

Leikskólastjóri í Reykjavík sagði í viðtali við RÚV í gær að henni væri ekki heimilt að innrita fleiri börn, þótt hún ætti fjögur laus pláss sem hún hefði undir venjulegum kringumstæðum boðið börnum sem náð hafa átján mánaða aldri.

Þetta væri afleiðing pólitískrar ákvörðunar. Oddný Sturludóttir er formaður Skóla- og frístundaráðs í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Já pólitíska ákvörðunin er auðvitað sú að við jukum framlög til leikskóla á þessu ári um hundruðir milljóna til að koma leikskólabörnum fæddum 2009 fyrir og það var svo mikið forgangsmál og svo mikið átak sem þurfti til, af því að árgangurinn var svo miklu stærri en árgangurinn sem hóf nám við grunnskóla í haust, að við drógum línuna þar. En svo skoðum við hvort við höfum fjárhagslegt svigrúm til að taka þessi elstu börn inn eitthvað fyrr, 2010 börnin komast náttúrulega öll inn í síðasta lagi næsta haust.“

Oddný segir að í sumum hverfum hafi borgin getað tekið inn yngri börn en þau sem verða 2 ára á árninu en vegna stærðar árganganna 2009 og 2010 hafi verið tekið fyrir það.

Því seinna sem börn innritast á leikskóla, því lengur þurfa foreldrar þeirra að kaupa þjónustu dagforeldra, sem getur verið allt að þrefalt dýrari en vistunargjald á leikskóla. Það er þó hagkvæmara frá sjónarhóli borgarinnar, sem borgar 37 þúsund krónur með hverju barni hjá dagforeldri, en 133 þúsund að meðaltali með hverju leikskólabarni í mánuði hverjum.

Aðspurð hvort þessi ákvörðun sé sparnaðaraðgerð segir Oddný ekki svo vera. „Það er erfitt að kalla það sparnaðaraðgerð, að auka fjárframlag um 658 milljónir króna.“

Börn eru tekin inn í leikskólana síðar á árinu en áður fyrr, eða að hausti til. Eðli málsins samkvæmt verða elstu börnin úr 2010 árganginum hátt í þriggja ára gömul þegar þeim stendur til boða að innritast næsta haust.

„Ef við sjáum að við eigum borð fyrir báru að hleypa elstu börnunum fæddum 2010 inn eitthvað fyrr þá að sjálfsögðu gerum við það.“

 

{loadposition nánar fréttir}

 

oli
Author: oli

Vefstjóri