Barnaföt á lágu verði
Blómabörn er verslun sem selur notaðan en heillegan barnafatnað á börn frá fæðingu upp í um tólf ára aldur. „Það kemur inn mest af ungbarnafötum enda haldast þau föt yfirleitt heilleg en fara frekar að slitna eftir að börnin eru komin meira á sjá, um tveggja ára aldur,” segir Laufey.
Hún fer sjálf yfir öll föt sem er komið með í verslunina og tekur til dæmis ekki við neinu sem er með blettum eða götum. „Ég vel þetta svolítið eftir því hvað ég myndi vilja kaupa sjálf,” segir hún. Í augnablikinu segir hún vera gríðarlegt framboð af fötum og að um þrjátíu manns sem bíði eftir að selja henni föt, en bæði er hægt að fá pening í þeirra stað eða önnur föt.
„Ég reyni að eiga sem minnstan lager. Ég vil frekar koma fötunum beint í sölu þegar ég tek við þeim. Ég er samt smám saman að auka vöruúrvalið og reyni að fylla á helmingi meira en ég sel. Fólk vill auðvitað frekar versla þar sem meira úrval er í boði,” segir hún. Yfirleitt eru fötin seld í stykkjatali en reglulega heldur Laufey kílóamarkað og selur þá kíló af fötum á 4.000 krónur. Slíkur markaður er til að mynda í gangi núna og verður fram í miðjan febrúar.
Það var fyrir slysni að Laufey leiddist út í reksturinn en hún hafði enga reynslu af verslunarrekstri þegar hún keypti Blómabörn í júlí síðastliðnum.
„Ég var í fæðingarorlofi og var hérna að versla þegar ég heyrði eigandann segja öðrum kúnna frá því að búðin væri að loka. Sú hafði stofnað búðina þremur árum áður og var orðin rosalega þreytt, enda mikið álag þegar maður er einn í þessu og getur aldrei tekið sér frí. Mér þótti svo sorglegt að búðin væri að loka að ég ákvað að skella mér bara í þetta. Það hentar mér líka rosalega vel að ég get verið með strákinn minn með mér í vinnunni,” segir Laufey, en hún á fimmtán mánaða gamlan son, Þóri.
Verslunin Blómabörn er staðsett að Bæjarhrauni 2 í Hafnarfirði og er opin alla virka daga frá eitt til hálf fimm, nema á fimmtudögum þegar opið er til sex, samkvæmt vísir.
{loadposition nánar fréttir}