Aldurssamsetningin að breytast
Mannfjöldapýramídinn á Íslandi er eins og flaska í laginu. Þetta kemur fram í nýrri mannfjöldaskýrslu Hagstofunnar. Þetta skýrist af því að á sjötta og fram á sjöunda áratuginn voru fæðingarárgangar mjög stórir, og mynda belg flöskunnar. Mjög dró úr fæðingum fram undir lok níunda áratugarins, þar er flöskuhálsinn, en fjölmennir fæðingarárgangar fjögurra ára og yngri endurspegla aukna fæðingartíðni á síðustu fimm árum. Og þar er tappinn.
Fjölmennasti aldurshópurinn er fólk á aldrinum 25-29 ára, þá 15-19 ára og loks börn upp að fimmta ári. Alls voru 43 Íslendingar 100 ára eða eldri um áramótin, þar af 35 konur. Í skýrslunni kemur fram að aldurssamsetning þjóðarinnar sé að breytast. Börnum fækkar hlutfallslega en eldra fólki fjölgar.
Nú í ársbyrjun var fólk á vinnualdri, frá tvítugu og til 64 ára, 59,6% landsmanna, en hlutfallið var 60% í fyrra, 0,4 prósentustigum meira en í ár.
Fækkunin stafar af því að hlutfallslega fleira fólk á vinnualdri en í öðrum aldurshópum flutti úr landi á síðasta ári. Alls fækkaði íbúum landsins um 0,5% á síðasta ári, það er í fyrsta sinn frá lokum 19. aldar sem fólksfækkun verður á Íslandi.
{loadposition nánar fréttir}