Af hverju mega þær ekki fæða börnin á sínum heimaslóðum
Vísir greindi frá því í gærkvöld að hópur þungaðra kvenna á Austurlandi þurfi nú að ferðast til Akureyrar eða Reykjavíkur til að eiga börn sín. Loka þurfti fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað eftir að skurðlæknir sem átti að vera á vakt út mánuðinn frá mánudegi forfallaðist.
Konurnar fengu þau skilaboð að þær þyrftu að yfirgefa sína heimabyggð til að eignast börnin. Ríkið greiðir aðeins ferðakostnað móðurinnar. Ekki verður greitt fyrir kostnað maka eða ljósmóður. Þá er húsnæðiskostnaður og annar tilfallandi kostnaður ekki greiddur.
„Það er verið að taka heilu fjölskyldurnar og slíta þær í sundur,” segir Anna. „Við tölum ávallt um samfellu í þessum málum, að fjölskyldur fái að vera saman þegar kemur að stóru stundinni. Það virðist ekki vera vilji fyrir því hjá yfirvöldum.”
Anna hefur verið í sambandi við konur á svæðinu. Hún segir að þó nokkur óvissa ríki meðal þeirra. Þá furðar hún sig á því hvernig heilbrigðisyfirvöld hafa tekið á málinu. Þessu fylgir mikill kostnaður sem og tekjutap — hún bendir á að það sé ekki sjálfsagt að taka bíl á leigu á þessum tíma árs, hvað þá hótelherbergi.
Þá segir hún að það sé lífsnauðsynlegt að tryggja öryggi og velferð móður og barns. Löng ferðalög fyrir fæðingu séu hreint ekki þess eðlis að stuðla að því.
„Við hjá Ljósmæðrafélaginu erum mjög hissa á þessu öllu,” segir Anna og spyr: „Af hverju mega þær ekki fæða börnin á sínum heimaslóðum?”
{loadposition nánar fréttir}