Aðsókn að leikskólakennaranámi eykst en mönnunarvandi áfram fyrirséður
Ný námsleið opnar brú fyrir fólk með mikla starfsreynslu úr leikskólum inn í leikskólakennaranám á háskólastigi. Aðsókn að leikskólakennaranámi hefur aukist en meira þarf til að vinna gegn mönnunarvanda.
Kennsla hefst um þessar mundir í fagháskólanámi í leikskólafræði, nýrri námsleið fyrir fólk með umtalsverða reynslu af störfum í leikskóla. Aðsókn í nám í leikskólakennarafræði hefur aukist á síðustu árum en meira þarf til að vinna á mönnunarvanda leikskóla.
Kristín Jónsdóttir, forseti deildar kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, segir aðsókn í nám í leikskólakennarafræði hafa aukist síðustu ár.
„Eftir töluverða lægð sem kom með lagabreytingu þegar námið var lengt í 5 ár. Þessi mikla aukning í aðsókn mun bæta mjög stöðuna í leikskólum en við vitum samt að það þarf meira til. Miðað við þær spár sem að Kennarasambandið og fleiri hafa gert þá vitum við að það er þörf fyrir fleiri hendur og fleiri menntaða leikskólakennara en sem nemur því sem að við náum að útskrifa.“
Hún segir að með þeim nemendum sem útskrifist frá Háskólanum á Akureyri megi reikna með um 100 nýjum leikskólakennurum á ári næstu árin. Til samanburðar eru stöðugildi í íslenskum leikskólum vel á sjöunda þúsund en aðeins um fjórðungur þeirra sem starfa í leikskólum er með kennsluréttindi.
Nú hefur verið sett á fót ný námsleið fyrir fólk sem hefur starfað án kennsluréttinda í leikskólum. Kristín segir að í því námi hefji tæplega sextíu nám í haust.
„Þetta er svona brú fyrir starfsfólk leikskóla sem er með bitastæða reynslu. Að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu sem að samsvarar hálfu námi í tvö ár þannig að allt í allt ljúka nemendur 60 einingum og geta fengið það að fullu metið inn í leikskólakennaranám og við vonum auðvitað að þau haldi öll áfram.“, samkvæmt visir.