Aðgerðir vegna manneklu í leikskólum Skagafjarðar
Verði eftirsóknarverður vinnustaður
Talsverð vöntun er á starfsfólki í stærsta leikskóla sveitarfélagsins, og því hefur ekki verið hægt að innrita börn fyrir haustið að sögn Regínu Valdimarsdóttur, formanns fræðslunefndar Skagafjarðar.
„Það er nú bara eins og flestir hafa tekið eftir hér á landi að það hefur náttúrulega verið vöntun á starfsfólki víða í atvinnulífinu. Það er nú 1,2% atvinnuleysi í Skagafirði þannig að við þurfum að fara í margvíslegar aðgerðir til að laða að nýtt starfsfólk og sérstaklega líka að viðhalda núverandi starfsfólki og reyna að gera leikskólann að eftirsóknarverðum vinnustað,“ segir Regína.
Unnið eftir tillögum starfsfólksins
Settur hefur verið upp aðgerðapakki í sex liðum sem samanstendur af fríðindum í starfi og bættum vinnuaðstæðum. Starfsmenn leikskóla fá fimmtíu prósent afslátt af leikskólagjöldum, undirbúningstími verður aukinn, meiri sveigjanleiki í ráðningum og meiri mannauðsráðgjöf og stuðningur inni á vinnustaðnum.
„Þetta eru tillögur sem koma líka frá skólastjórnanda eftir samtal við starfsfólk. Við litum þannig á að með þessum aðgerðum þá séum við að mæta þeirri eftirspurn sem hefur komið frá þeim,“ segir Regína.
Regína segir að aðgerðirnar séu þær fyrstu af mörgum.
Hafa húsnæði en ekki starfsfólk
Á síðasta kjörtímabili var lokið við nýbyggingu við leikskólann Ársali á Sauðárkróki til að hægt yrði að taka á móti fleiri börnum. Til stóð að þar yrðu tvær deildir. Nú er útlit fyrir að ekki sé hægt að nýta húsnæðið segir Regína.
„Núna erum við í rauninni bara með ónýtt rými þar sem það vantar starfsfólk. Ef við myndum fá inn starfsfólk þá hefur sveitarfélagið alla burði til að taka á móti börnum allt niður í 12 mánaða aldur.“, samkvæmt RUV.
{loadposition nánar fréttir}