Aðgerast dagforeldri
Að vera dagforeldri er mjög gefandi og jafnframt krefjandi starf, og skemmtilegt ef þú hefur gaman af börnum.
Að vera gott dagforeldri er að geta náð trausti barnsins svo það finni til öryggis, gleði og ánægju meðan mamma og pabbi eru frá.
Að vera dagforeldri krefst: áhuga, þolinmæði, skipulagni, alúð, reglusemi og hæfni í mannlegum samskiptum.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis til daggæslu barna í heimahúsi.
- Umsækjandi þarf að hafa náð 20 ára aldri
- Umsækjandi þarf að fara í viðtal við félagsráðgjafa fjölskyldudeildar
- Daggæslufulltrúi og félagsráðgjafi taka út heimili umsækjenda
- Daggæslufulltrúi kynnir reglugerð um daggæslu og ásamt undirstöðuatriðum fyrir því að gerast dagforeldri
- Umsækjandi þarf að sækja námskeið fyrir verðandi dagforeldra – eða sýna vottorð annað nám sem metið er til jafns við námskeiðið.
- Skila þarf læknisvottorði fyrir alla fjölskyldumeðlimi
- Leggja þarf fram meðmæli frá síðasta vinnuveitanda
Leggja þarf fram fullt sakavottorð allra 18 ára og eldri á heimili
- Húsakynni þurfa að vera rúmgóð – gert er ráð fyrir leiksvæði sem nemur 3 m2 að gólffleti fyrir hvert barn
- Öryggisatriði þurfa að vera í lagi s.s. beisli í barnastólum, beisli í barnavögnum, sjúkrakassi yfirfarinn og í lagi
- Eldvarnir þurfa að vera í lagi þ.e. reykskynjarar, slökkvitæki, eldvarnarteppi og flóttaleiðir
- Lóð, leiktæki og leikföng þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði
- Útileiksvæði barnanna þarf að vera afgirt
- Samþykki íbúa í fjöleignahúsi þarf að liggja fyrir, að svo miklu leyti sem húseigendalög kveða á um.
- Samþykki leigusala þarf að liggja fyrir, sé gæslan rekin í leiguhúsnæði
- Undirrita þarf þagnarskyldu
- Ganga frá slysatryggingum fyrir börnin
Allt þetta ferli er unnið í samráði við daggæslufulltrúa í þínu sveitar/bæjarfélagi.