anabel 270x100 
naglavörur
Thursday, 26 January 2012 11:52

Notkun sýklalyfja virðist auka líkur á sýkingum

Skrifað af
Stjörnugjöf
(0 Stig)

 Um það bil helmingur sýkla sem valda sýkingum í eyrum, lungum og hálsi er ónæmur fyrir sýklalyfjum. Íslendingar standa mjög illa hvað þetta varðar en þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð eykst notkun sýklalyfja.

"Vísbendingar eru um að notkun sýklalyfja auki líkur á frekari sýkingum," segir Vilhjálmur Ari Arason læknir.
"Vísbendingar eru um að notkun sýklalyfja auki líkur á frekari sýkingum," segir Vilhjálmur Ari Arason læknir. Á föstudaginn gaf Landlæknir út nýjar leiðbeiningar um meðferð við bráðri eyrnabólgu. Ein ástæðan fyrir því er ör fjölgun lyfjaónæmra baktería í heiminum en þar standa Íslendingar mjög illa að vígi. Sýklalyfjanotkun hér er allt að fjörutíu prósentum meiri en annar staðar á Norðurlöndum og notkun slíkra lyfja eykst þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð.

Rannsóknir Vilhjálms sýna að eftir hvern sýklalyfjakúr fimmfaldast áhættan á því að börn smitist af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Ástandið er misslæmt eftir landshlutum. Vilhjálmur hefur borið saman sýklalyfjanotkun í fjórum landshlutum og kom þar meðal annars í ljós að á Egilsstöðum hefði snardregið úr notkun þeirra. Þar þurftu sautján prósent barna að fá rör í eyrun. Í Vestmannaeyjum var sýklalyfjum hins vegar mikið ávísað á börn og lætur nærri að þar þurfi annað hvert barn að fá rör, eða 44 prósent þeirra.

Nýjustu upplýsingar frá Sýklafræðideild Landspítalans sýna að næstum helmingur algengustu þeirra sýkla sem valda flestum hálsbólgum, eyrnabólgum og lungnabólgum er orðinn ónæmur fyrir pensilínlyfjum eða helstu varalyfjum. "Þetta er samt bara toppurinn af því sem koma skal. Við erum hreinlega að missa af því að geta meðhöndlað sýkingar á áhrifaríkan hátt með lyfjagjöf. Við erum búin að vita af þessu lengi en samt erum við að koma að þessum óvissutímum og stöndum miklu verr en nágrannaþjóðir okkar," segir Vilhjálmur. Þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð um nauðsyn þess að draga úr ávísunum á sýklalyf benda rannsóknir Vilhjálms á sölutölum á lyfjum á tímabilunum 1997-8 og svo 2007-8 til þess að notkun þeirra hafi aukist enn frekar, um 25 til þrjátíu prósent.

Kostnaður vegna kaupa á sýklalyfjum er þungur fyrir heilbrigðiskerfið og skipar fimmta sæti í heildarkostnaði vegna kaupa á lyfjum. Stærstum hluta lyfjanna er svo ávísað til barna. Segir Vilhjálmur langtímaafleiðingar ofnotkunarinnar sérlega alvarlega vegna sýklalyfjaónæmisins. Að auki sé fjórðungur allra heimsókna til heilsugæslunnar vegna svokallaðra loftvegssýkinga og þar af séu eyrnabólgur langalgengasta sýkingin.

Nánar má lesa um málið í nýju blaði Læknafélags Reykjavíkur sem kom út fyrr í mánuðinum í tilefni 100 ára afmælis félagsins og á vef Landlæknis.karen

Heimildir: Fréttablaðið

Lesið 3862 Sinnum